31.12.2008 | 11:23
Hugleiðing um áramótaheit
Ég óska ykkur öllum árs og friðar. Mig langaði til að deila með ykkur nokkrum hugleiðingum um áramótaheit. Margir virðast strengja heit sem eru neikvæð og felast í því að hætta hinu og þessu, eða pína sjálfan sig til að gera eitt eða annað ógeðfelt, til dæmis að stunda táfýlulíkamsræktarstöðvar eða eitthvað þess háttar. Væri ekki betra að nálgast þetta á jákvæðan hátt?
Í mínum huga byrja góð áramótaheit ekki á orðunum "ég ætla að hætta", heldur frekar
Ég ætla að halda áfram að..
Ég ætla að gera mér far um...
Ég ætla að auka mér skilning á...
Áramótaheit mitt er að halda áfram gera mér far um að koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig.
Ég ætla að halda áfram að gæta hófsemdar í mataræði og hreifingu. Ég á bara einn líkama og ég ætla ekki að nota hann sem ruslafötu.
Ég ætla að gera mér far um að muna að hver dagur gæti verið minn síðasti. Það sem gert er verður aldrei tekið til baka. Hefur þú notað þau tækifæri sem þér hafa verið gefin? Hefur framkoma þín verið sómasamleg í alla staði?
Ég ætla að gera mér far um að njóta lífsins.
Ég ætla að auka mér skilning á málefnum heimsins.
Þetta eru ekki mörg orð en innihalda mjög mikið. Mér verður oft hugsað til þess þegar ég sá móður með barn sitt í búð. Konan skammaði barnið í sífellu, "af hverju fórstu ekki á klósettið áður en við fórum að heiman?", af hverju gerir þú ekki hitt og af hverju ekki þetta. Þetta var svo sorglegt og með þessu var konan að sýna barninu, og ennþá meira sjáfri sér lítilsvirðingu. Hefði hún komið svona fram við barnið ef hún vissi að þetta yrði hennar síðasti dagur með því? Það sem þú ert að upplifa NÚNA er það dýrmætasta, og raunar það eina sem þú átt. Það verður aldrei neitt annað. Ef einhver lítil rödd segir við þig, "vilt þú leika með mér?", þá ættir þú að fyllast gleði og gefa þig allan í að njóta stundarinnar með þeim sem þér þykir vænt um. Aldrei segja að þú hafir ekki tíma til þess.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.