3.6.2009 | 21:13
Hvað má læra af þessu?
Því miður, þá hefur Jóhanna lög að mæla. Það er kannski hægt að hjálpa þeim sem eru raunverulega komnir í þrot en það er ekki hægt að lækka lán allra þeirra sem geta borgað, að minnsta kosti ekki án þess að grípa til aðgerða sem leiða enn meiri hörmungar yfir þjóðina.
Hvað metum við meira, efnisleg gæði eða sjálfstæði? Erum við betur komin í dýrum bíl og í fínu húsnæði og með skuldaklafa á öxlunum eða skuldlítil með minni efnisleg gæði? Ég held að núverandi ástand hjálpi mörgum til að finna svar við þessari spurningu. Mín skoðun er sú að ENGIN efnahagsleg gæði vegi þyngra en sjálfstæði. Fangelsi er fangelsi, hvort sem það er gert úr gulli eða járnrimlum og steypu.
Er ekki kominn tími fyrir íslendinga að gera byltingu á afstöðu sinni til verðmæta? Hver er betur settur, þú með þinn fína bíl, fallegu húsgögn og risa flatskjá og langan skuldahala eða nágrani þinn sem hefur bara það nauðsynlegasta og skuldar lítið? Hver sefur betur?
Þetta hefur verið allt of dýr lærdómur. Ég fór sjálfur gengum skólakerfið en enginn minntist einu orði á þetta. Er ekki kominn tími til að gera þetta að skyldunámsgrein?
Hvernig er hægt að fara í gengum allt skólakerfið, jafnvel háskóla og koma út úr því án þess að hafa hundsvit á því hvernig á að fara með peninga? Mér er það enn minnistætt þegar starfsmenn banka nokkurs, sem nú er orðinn gjaldþrota, komu á vinnustað minn. Þeir buðu gull og græna skóga. Hins vegar kom í ljós þegar þeir voru spurðir einfaldra spurninga að þeir voru úti að aka og vissu ekkert í sinn haus. Engin furða að svo fór sem fór og að þeir tóku marga sakleysingjana með sér í fallinu.
Skuldavandinn minni en talið var | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já þetta er góð spurning hjá þér. Fjármálalæsi Íslendinga er víst ekki uppá marga fiska og það þyrfti þjóðarátak í að breyta því sem lið í breyttu og betra gildismati.
Guðrún Helgadóttir, 3.6.2009 kl. 21:41
Það má vera að ekki séu fjárfestingar landans of vel ígrundaðar, en þeir sem fjárfestu í góðri trú og gerðu plön um það að greiða upp sínar skuldir með eðlilegum hætti standa nú frammi fyrir ófyrirséðum vanda.
Og nú er staðan þannig að þó að menn vilji snú frá braut flatskjáa og lúxusjeppa þá er það einfaldlega ekki hægt, engu er hægt að koma í verð og því eru menn í "fangelsi" skulda um fyrirsjáanlega framtíð...
Eiður Ragnarsson, 3.6.2009 kl. 23:03
Takk, Guðrún og Eiður. Góðir punktar hjá ykkur.
Hörður Þórðarson, 4.6.2009 kl. 02:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.